Betri en þú

Janúar er viðbjóður fullur af reynslusögum fullkomna fólksins sem sneri við blaðinu og missti fullt af kílóum og lifir nú á grasi og vatni.

Sérhver síða blaðanna öskrar á mann hve ófullkominn maður er. Að aðrir séu betri en ég. Að maður sé einskis virði.

Auminginn á Aragötunni

Gaurinn á Aragötunni er ekki á góðri leið. Heldur dópveislur dauðans, fer yfir um og meinar stúlkum útgöngu eftir að hafa dúndrað í þær gegn dópi. Slæst svo við lögguna þegar hann er loksins handtekinn.

Ljóst er orðið að hann nýtur betri meðferðar en Jói á bolnum sem er búinn að skíta upp á bak í Breiðholtinu. Er sleppt út með áminningu meðan bílþjófur er sendur í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Alveg komið nóg af þessari samtryggingu flokksins og vernd yfir nauðgurum og barnaníðingum innan hans raða.

Vistaskipti næstu jól?

Getur verið að ég sé að breytast í skrögg? Meika ekki lengur þessi jól og áramót. Eflaust vegna þess að ég er barnlaus.

Öll jólalög nema þessi klassísku amerísku fara í taugarnar á mér. Tilraunakenndar smásprengingar fara í mínar fínustu. Kannski ættu björgunarsveitirnar bara að sjá um allt draslið og halda almennilegar sýningar í öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins við áramót?

Kannski er Tenerife málið að ári?

Ár án ótta

Ár er liðið síðan ég lagðist undir hnífinn með sátt við sjálfan mig að það væri allt í lagi að vakna ekki aftur upp úr svæfingunni. Við Dauðinn vorum dús. Ég hafði átt gott líf og upplifað flest nema kannski að feðra barn. Mér til mikillar undrunar var ég vakinn upp af hjúkrunarkonu nokkrum tímum seinna og boðið dýrindis súpa og brauð.

Síðan þá hef ég óttast talsvert færri hluti!

Félagsfærnin gufaði upp. Ég æði inn í verslunarmiðstöðvar með bros á vör. Geitungar hræða mig ekki. Set ekki lengur net fyrir gluggana heima hjá mér eins og áður. Nálar hræða mig ekki lengur og ég horfi á þegar hjúkrunarfræðingurinn stingur mig í handlegginn. Umferðin er leikur einn og ég svíf á milli annarra bifreiða (afi er þó enn við stýrið). Freki kallinn er orðinn litli kallinn. Ég horfi stíft í augun á honum og nú hörfar hann oftar en ég.

Lífið er allt of stutt. Get ekki lengur setið á hliðarlínunni og beðið eftir því að það komi fyrir mig. Nú verð ég að sækja það heim af krafti. Reyna að klára þessa andskotans ritgerð. Elta líkleg pils. Tæma stöku könnu í góðra vina hópi. Gefa þeim á kjaftinn sem eiga það skilið.

Gamlingar uppfullir af hatri

Sérhvern dag fæ ég æluna í hálsinn yfir afturhaldssinnuðum eldri mönnum sem hata konur og röfla endalaust ef einhver þeirra hlýtur frama innan flokksins þeirra.

Ég skil ekki hvernig þessir virkir í athugasemdum DV og innhringitíma Útvarps Sögu nenna þessu rugli. Af hverju njóta þeir ekki frekar lífsins og gera eitthvað skemmtilegt áður en þeir hrökkva upp af.

Ég myndi sennilega reyna að skalla þessa gaura í jólaboðum. Bara fyrir að elska Ingva Hrafn, Pál Vilhjálmsson, Viðar Guðjohnsen (eldri og yngri) og Donald Trump.

Og hvað er með þetta hatur á Gretu Thunberg? Látið hana í friði!

Ljóti kallinn

Skautadrottning að norðan varð fyrir kynferðislegu áreiti af hendi þjálfara síns. Málið þaggað niður og hún þolendaskömmuð. Næstum orðin átján ára og átti augljóslega bara að leggjast undir gaurinn samkvæmt skautafélaginu til að halda friðinn.

Þjálfarar, kennarar, og stjórnendur eiga ekkert með að reyna við fólk undir sér. Til þess er valdajafnvægið of mikið. Punktur!

Freki kallinn

Hitti þennan gaur hvern morgun á leið til vinnu í umferðinni. Er oftast á enskum jeppa og hirðir lítið um stefnuljós. Svínar bara fyrir þig án umhugsunar.

Hitti hann í apóteki um daginn þar sem miðakerfi stjórnar öllu en ekki óskipulagðar biðraðir. Hann var rétt búinn að panta lyfið þegar hann hóf að æpa og öskra aö hann væri búinn að bíða í óratíma og sætti sig ekki við þetta.

Hangir aftan í mér yfir hraðahindranir. Finn fyrir honum djúpt í iðrum mér þó gatan sé annars auð og bjóði upp á góða fjarlægð milli bifreiða.

Hann arðrænir land og þjóð í gegnum kvótakerfið og afrísk ríki þegar Ísland dugir ekki til.

Hann er í Sjálfgræðgisflokknum.